Gagnasafnsfræði, haust 2011

[ Dagskrá  |  Námsefni  |  Verkefni  |  Dæmatímar  |  Orðalisti  |  Námsmat  |  Kennslubók ]

Verkefni 1 - Einindavenslalíkanið

Lausnum skal skilað í hólf viðkomandi dæmakennara (sjá lista yfir dæmatíma).

Skiladagur: föstudaginn 2. september fyrir kl 16:00

Þið ráðið hvort þið teiknið myndirnar sjálf á blað eða notið forrit í tölvu og prentið út myndir (sjá tengla hér fyrir neðan á ýmis forrit).

Forrit til að teikna einindavenslalíkön

Skiladæmi:

  1. Hannið gagnasafn (teiknið einindavenslarit) fyrir verkefnavinnu nemenda í námskeiði. Nemandi leysir ýmis verkefni og fær einkunn fyrir hvert þeirra. Nemandi getur einnig tekið þátt í hóp nemenda sem vinnur hópverkefni og hópurinn fær einkunn fyrir það. Í báðum tilfellum geta þetta verið mörg verkefni. Kennari setur fyrir verkefni og hópverkefni.

  2. [Próf 2010] Hjá fyrirtæki einu á að geyma eftirfarandi upplýsingar í gagnasafni (einindi feitletruð). Fyrir alla starfsmenn þarf að geyma kennitölu, nafn og deild. Hver starfsmaður hefur mest einn yfirmann yfir sér. Yfirmenn eru starfsmenn og hafa auk þess eigindin titill. Hjá fyrirtækinu starfa einnig ráðgjafar með kennitölu, nafn og fyrirtæki. Verkefni eru í gangi í fyrirtækinu með verknúmer og nafn. Í hverju verkefni geta verið margir starfsmenn og hver starfsmaður getur verið í mörgum verkefnum. Hvert verkefni hefur einn verkefnastjóra, sem getur verið starfsmaður eða ráðgjafi.

    Setjið þetta upp sem einindavenslalíkan (e. entity-relationship model).

  3. [Próf 2009] Þið eigið að hanna gagnasafn fyrir rekstur bifreiðaverkstæðis. Viðskiptavinur bókar tíma fyrir viðgerð á bifreið sinni. Fyrir hvern viðskiptavin þarf að skrá kennitölu, nafn og síma. Fyrir bifreiðarnar þarf að geyma skráningarnúmer, gerð, tegund og árgerð. Hver viðgerð þarf tiltekna varahluti. Halda þarf skrá yfir varahluti, lýsingu á þeim og verð. Viðskiptavinur getur komið með margar mismunandi bifreiðar til viðgerðar. Auk þess hefur verkstæðið tiltekinn fjölda viðgerðarmanna sem hver sér um eina viðgerð á einni bifreið.

    Teiknið þessar upplýsingar upp í einindavenslarit (e. entity-relationship diagram) með öllum þeim skorðum sem fram koma í lýsingunni. Fyrir hver einindavensl sem koma fyrir í ritinu réttlætið eiginleika þeirra með vísun í texta dæmisins eða forsendu sem þið gefið ykkur.

  4. [Próf 2008] Þið eigið að hanna gagnasafn fyrir ákveðna þætti í rekstri sjúkrahúss. Sjúkrahúsið hefur marga skráða lækna. Fyrir hvern lækni er skráð auðkenni hans og sérsvið. Sjúklingar eru við komuna á spítalann skoðaðir af einhverjum tilteknum lækni. Eftir innlögn er hver sjúklingur meðhöndlaður af einum eða fleiri læknum. Þegar sjúklingur er meðhöndlaður af lækni þá er meðferðin skráð með dagsetningu, lýsingu og niðurstöðum. Sem hluta af tiltekinni meðferð getur læknir pantað rannsóknir á sjúklingi. Fyrir hverja rannsókn þarf að skrá auðkenni rannsóknarinnar, tegund hennar (blóðrannsókn, þvagrannsókn, o.s.frv), dagsetningu, starfsmann sem framkvæmdi rannsóknina og útkomu hennar. Auk þess þarf að skrá persónuupplýsingar um hvern sjúkling.

    Teiknið þessar upplýsingar upp í einindavenslarit (e. entity-relationship diagram) með öllum þeim skorðum sem fram koma í lýsingunni. Fyrir hver einindavensl sem koma fyrir í ritinu réttlætið eiginleika þeirra með vísun í texta dæmisins eða forsendu sem þið gefið ykkur.